Side, Tyrkland

Royal Dragon

toFewGuestCreds
toShowanyResult
toFewGuestCreds
toShowanyResult

4 manns í sama herbergi
Barnaverð til og með 11 ára
Lægsta verð:
Barn frá:
Barnaklúbbur
Alþjóðlegur
Sundlaug:
Strönd
0 m 
Miðbær
8 km 

Vinsælt lúxushótel með smáatriðin í lagi

Dreymir þig um kínverska ævintýraferð en finnst samt of langt til Kína? Farðu þá á Royal Dragon í staðinn! Asískt þema hótelsins er úthugsað og hér er nóg af afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Hér færðu sömu gæðin og þekkjast á öðrum hótelum Royal-keðjunnar og á sama tíma ertu nálægt huggulegu borginni Side.

Á bak við þessa stílhreinu asísku innrömmun leynist frábært gæðahótel. Hugmyndin að Royal Dragon kviknaði á ferðalagi um Kína. Hvert smáatriði varðandi arkitektúr og hönnun hótelsins er í kínverskum stíl en kryddað með einstökum smáatriðum, sem gerir hótelið alveg sérstakt. Hér getur þú upplifað yndislega sumarfrísstemningu umvafða leyndardómsfullri stemningu frá austurlöndum fjær.

Einstök strönd og stór vatnsleikjagarður

Royal Dragon er sannkallað lúxushótel með flottu sundlaugarsvæði og frábærri strönd, sem er rúmlega 100 m breið og teygir sig svo langt sem augað eygir. Sundlaugarsvæðið er í laginu eins og aflangt stöðuvatn og er staðsett á milli hótels og strandar. Að auki er sérstakt barnasvæði með barnalaugum og einum stærsta vatnsleikjagarðinum í Side.

Bæði á ströndinni og við sundlaugarnar eru heilmargir sólstólar, dýnur og sólhlífar og auðvitað er bæði sundlaugarbar og strandbar með alls konar léttar veitingar, sem þú getur bara gengið í þar sem þetta er jú „allt innifalið“! Ströndin er mjög barnvæn þar sem sjórinn er grunnur og litlir fætur geta leikið sér óhræddir án þess að vatnið dýpki skyndilega.

Jafnt stórir sem smáir geta skemmt sér daginn endilangan við að renna sér niður vatnsrennibrautirnar og lent með miklu busli í lauginni! Minnstu börnin hafa sitt eigið litla sundlaugarsvæði með vatnsrennibrautum þannig að þau geta líka fengið að finna hvernig það kitlar í magann að renna hratt niður rennibrautina og út í laug.

Ef þú vilt passa að detta ekki úr formi í sumarfríinu, þá geturðu byrjað daginn á að synda nokkrar ferðir í æfingalaug við enda sundlaugarsvæðisins. Þar er einnig vatnaleikfimi á morgnana. Þú getur líka bara látið þig fljóta um á vindsænginni á meðan þú nýtur þess að hlusta á hljóðið frá litlu fossunum sem víðsvegar eru í kringum sundlaugina. Á hverjum degi er ýmislegt skemmtilegt skipulagt við sundlaugina sem hentar bæði fyrir börn og fullorðna.

Hótelið býður daglega upp á eitt handklæði á mann til afnota við sundlaug eða við ströndina. Ef þú vilt skipta út handklæðinu yfir daginn, þarf að greiða fyrir það.

Allt innifalið - Allan sólarhringinn!

Aðalveitingastaðurinn býður upp á virkilega girnileg hlaðborð sem fær flesta til að fara sadda frá borði. Hlaðborðið er mjög fjölbreytt og býður bæði upp á tyrkneska og eins alþjóðlega rétti. Fyrir heilsusamlega fólkið er einnig að finna hollan mat svo þú getur haldið samviskunni góðri en á sama tíma notið góðra rétta. Fyrir þá sem verða svangir þegar líða tekur á kvöldið, er einnig boðið upp á léttara næturhlaðborð. Ef þú hefur áhuga á að setjast niður í einn drykk áður en haldið er í rúmið, þá er alltaf að minnsta kosti einn bar á Royal Dragon opinn allan sólarhringinn.

Hér er ekki bara hugsað út í fullorðna fólkið, heldur er líka hugsað út í litlu gestina okkar! Börnin fá nefnilega sitt eigið svæði á veitingastaðnum með litlum borðum og stólum. Ís er í boði fyrir alla gesti vissa tíma dagsins.

Ef þú vilt njóta rólegs og rómantísks kvöldverðar, geturðu valið á milli fjögurra mismunandi a la carte veitingastaða. Þessir staðir bjóða upp á ítalskan, tyrkneskan, asískan mat ásamt sjávarréttum. En þú getur snætt hér eins oft og þú vilt gegn greiðslu, svo framarlega sem pláss leyfir. Mundu að panta borð með allavega sólarhrings fyrirvara, því það gæti verið að aðrir hafi fengið sömu góðu hugmyndina.

Mikið úrval af vinsælli afþreyingu

Börnin eignast oft nýja vini í alþjóðlega barnaklúbbnum, þar sem leiðbeinendurnir skipuleggja hina ýmsu leiki og aðra afþreyingu fyrir börnin. Á kvöldin dansa svo börnin á minidiskótekinu fyrir stolta foreldra og aðra forvitna gesti. Barnaklúbburinn er fyrir öll börn á aldrinum 4-12 ára.

Royal Dragon er með alveg sérstakt svæði, sem er sérsniðið fyrir börnin. Garðurinn heitir „Funfair" og er samblanda af vatnsleikjagarði með mörgum vatnsrennibrautum og minitívolíi með hringekju og öðrum skemmtilegum tækjum. Þetta svæði skilur eftir sig ógleymanlegar minningar fyrir börnin og hér eyðir fjölskyldan venjulega miklum tíma í fríinu.

Litlu gestirnir hafa sitt eigið svæði á veitingastaðnum og þar eru lítil borð og litlir stólar. Í „Food Corner" er svo boðið upp á ís á ákveðnum tíma dagsins og það vekur ávallt mikla gleði á meðal barnanna!

Afþreying sem vekur upp barnið í þér

Royal Dragon býður upp á mikið af afburða afþreyingu fyrir bæði vatnadýrkendur, íþróttaelskendur og alla þá sem elska að slappa af með kaldan drykk við hönd, í heitri sólinni. Hér eru keilubrautir, spilasalur, borðtennis, tennisvöllur, vatnasport, strandblak og tölvuherbergi að ógleymdri vel búinni líkamsræktarstöð! Á kvöldin eru svo litríkar sýningar á leikvangi hótelsins. Það er frítt þráðlaust Internet á ákveðnum stöðum hótelsins.

Kvöldin þurfa ekki að vera róleg frekar en þú vilt. Byrjaðu kvöldið á minidiskóteki barnanna á leikvanginum og sjáðu hvað börnin hafa lært í dansi yfir daginn. Þar á eftir geturðu fengið að dilla þér við lifandi tónlist eða farið á diskótek. Ef þú vilt frekar eiga kyrrláta kvöldstund er hægt að fara í kvöldgöngu á ströndinni og hlusta á magnþrunginn seiðandi ölduniðinn á meðan að viðburðir dagsins síast inn.

Herbergi í asískum stíl fyrir allt að fjóra

Á Royal Dragon færðu rúmgóð og glæsileg herbergi eins og á öðrum Royal hótelum. En hér eru þau í asískum stíl og með leyndardómsfullum austrænum keim.

Á öllum herbergjum eru svalir, gólfteppi, sófi, hægindastóll, lítill ísskápur, sjónvarp, hárblásari, loftkæling og öryggishólf.

Tvíbýli, 2-4 manna

Tvíbýlin eru ljós, rúmgóð herbergi og gegn smá auka greiðslu geturðu tryggt þér sjávarútsýni. Hér er pláss fyrir 2-4 manns þá hámark þrjá fullorðna og eitt barn, og að minnsta kosti tveir þurfa að greiða fullt verð. Þar að auki getur eitt barn greitt barnaverð og annað barn fengið barnaafslátt af fullorðinsverði. Gegn smá auka greiðslu geturðu bókað þetta herbergi sem einstaklingsherbergi. Tvíbýlið er um það bil 40 m².

Fjölskyldusvíta, 3-4 manna

Í þessum u.þ.b. 60 m² svítum eru tvö svefnherbergi í sömu svítunni, þar sem annað er venjulega með tvíbreiðu rúmi og hitt með tveimur einbreiðum rúmum. Útbúnaður, innréttingar og skreytingar eru þær sömu og í flottu tvíbýlunum. Stærra svefnherbergið er með svalir og minna herbergið er venjulega með franskar svalir. Hér er pláss fyrir 3-4 fullorðna, minnst þrír þurfa að greiða fullt verð en mögulegt er að fá eitt barnaverð.

Duplex fjölskyldusvíta, 3-4 manna

Þessi u.þ.b. 60 m² svíta er á tveimur opnum hæðum þar sem svefnrými er á hvorri hæð. Á neðri hæðinni eru venjulega tvö einbreið rúm og baðherbergi með sturtu, en á efri hæðinni er tvíbreitt rúm og baðherbergi með baðkari. Svalirnar eru á neðri hæðinni. Hér er pláss fyrir 3-4 fullorðna og lágmark þrír þurfa að greiða fullt verð en mögulegt er að fá eitt barnaverð. Duplex fjölskyldusvítan er alltaf staðsett á efstu hæð hótelsins.

Nýtt asískt nudd

Þar sem að Royal Dragon er í asískum stíl, þá máttu ekki missa af tækifærinu á að fá nudd og dekurmeðferð, eins og austurlönd fjær eru þekkt fyrir. Í heilsulind hótelsins geturðu bæði farið í asískt dekur og slappað af í tyrknesku baði.

Á Royal Dragon er flott heilsulind, sem lokkar til sín gesti með gufubaði, tyrknesku baði, afslappandi nuddi og dekurmeðferðum víðsvegar að úr heiminum. Þú getur hoppað í pottinn og slappað af undir stjörnuhimni heilsulindarinnar, eða þú getur prófað mismunandi asísk nudd.

Þar fyrir utan geturðu einnig hugsað sérstaklega vel um hendur, fætur og andlit og farið í alls konar meðferðir. Heilsulindin getur án vafa gert dvöl þína á Royal Dragon enn betri.

Vilt þú öðlast ógleymanlegar minningar?

Hjá Nazar erum við sérfræðingar í að skipuleggja ferðir til Tyrklands og það er okkar takmark að þú haldir heim á leið með ógleymanlegar minningar í farteskinu. Þess vegna höfum við sett saman fjölbreytta dagskrá, þar sem reynsluríkir fararstjórar fara með þig í æsispennandi ævintýraferðir, freistandi verslunarferðir, heillandi menningarferðir, grípandi náttúruferðir eða leiða þig í villta skemmtun sem fær adrenalínið til að flæða.  Hafðu samband við fararstjóra okkar á áfangastað fyrir frekari upplýsingar um ferðir og skráningu.

Side

Hótelið er staðsett í Side á suðurstönd Tyrklands.  Side er heillandi blanda af gömlu og nýju þar sem nútímalegur ferðamannastaður liggur við hlið krúttlegra og hlykkjóttra smágatna. En þær eru í sjálfu sér ótrúlega vel varðveittar minjar rómverskra tíma. Dekraðu við þig með kvöldverði á einum af dásamlegu veitingastöðunum, verslaðu í spennandi verslunum eða farðu í gönguferð á ströndinni og njóttu töfrandi stemningar í stjörnuskini við upplýstar rústir borgarinnar.

Há- eða lágannatími

Þegar að þú ferðast utan háannatíma, getur verið að veitingastaðir, barir og ýmsar verslanir séu lokaðar, eða loki fyrr en venjulega. Á mörgum hótelum er sólin notuð til upphitunar og til að hita upp vatn og því getur verið kaldara á hótelunum í lengri eða styttri tímabil.

Á lágannatíma getur líka verið að hótel velji að loka fyrr en áætlað hafi verið. Þetta getur þýtt að við þurfum að láta gesti okkar vita með tiltölulega stuttum fyrirvara að þeirra hótel hafi breyst. Einnig getur verið að hluti af hótelsvæðinu sé lokaður eða loki fyrr utan háannatíma. Þetta gildir t.d. um veitingastaði, sundlaugar, bari, barnaskemmtanir og fleira. Innihaldið á hlaðborðunum er miðað við fjölda gesta og því gæti úrvalið minnkað eitthvað.

Á háannatíma (frá 1. júní til 30. september) er yfirleitt líf og fjör á hótelinu og því geta myndast biðraðir á veitingahúsin eða barnum eða biðtími lengst. Það er ekki óvanalegt að tónlist sé á börunum og veitingahúsunum. Athugið að það getur orðið rafmagnslaust eða vatnslaust bæði á háanna- og lágannatíma.